Lupinus nootkatensis
Alaskalúpína er stórvaxin tegund af ertublómaætt. Plantan viðheldur sér með gífurlegri fræframleiðslu og jafnvel rótarskotum.
Fræ alaskalúpínunnar geta lifað í jarðvegi í mörg ár.
Blóm alaskalúpínunnar eru blá eða fjólublá, mörg saman í 20-30 cm löngum klasa. Blöðin eru fingruð með 7-8 smáblöðum og stilkur og smáblöð eru hærð.
Fræ þroskast síðsumars í kólfum og þegar kólfar þorna kasta þeir fræjunum frá sér. Tegundin er stórvaxin og geta stönglar orðið um og yfir 120 cm hæð.
Alaskalúpína sem sleppur inn á gróin svæði (t.d.berjalönd, mólendi og lággróður) leggur svæðin undir sig og eyðir gróðri sem fyrir er.
Alaskalúpínan bindur köfnunarefni og eykur frjósemi jarðvegsins. Þá hopa íslenskar plöntur sem eru aðlagaðar rýrum jarðvegi. Í staðinn koma köfnunarefnisfrekar tegundir eins og skógarkerfill, njóli, ætihvönn og graslendi.
Alaskalúpína dregur úr líffræðilegum fjölbreytileika náttúrunnar og landslagsins, þar sem hún dreifist hratt og myndar þéttar breiður sem hamla vexti annarra plantna.
Hún breytir næringarframboði í jarðveginum sem gerir innlendum plöntum sem fyrir eru erfitt uppdráttar.
Hún tekur yfir svæði og þau verða einsleit.
Alaskalúpína getur hamlað útivist á eignalóðum.
Þar sem alaskalúpínan vex myndar hún þéttar breiður og myndar mikla sinu sem safnast upp, margfalt magn miðað við sinu á graslendi. Veruleg eldhætta getur verið af þurrefni lúpínunnar.
Varasamt getur því verið að rækta lúpínu við sumarbústaði og eignarlóðir.
Alaskalúpínan getur myndað stórar breiður af plöntum sem veitir öðrum plöntum í garðinum samkeppni um pláss og sólarljós.
Því lengur sem útbreiðsla alaskalúpínunnar hefur verið óhindruð, því erfiðari er uppræting plöntunnar.
Alaskalúpínan inniheldur svokallaða alkalóíða. Við neyslu getur það framkallað maga- og höfuðverki. Einnig getur alaskalúpínan verið ofnæmisvaldandi.
Lengi vel var útbreiðsla alaskalúpínunnar takmörkuð. Í kjölfar minni sauðfjárbeitar og aukinnar notkunar í landgræðslu og skógrækt jókst útbreiðslan mjög mikið, bæði á ógrónu landi sem og grónu.
Nú finnst alaskalúpínan um allt land og myndar oft afar stórar samfelldar breiður í landslaginu. Kjörlendi tegundarinnar eru melar, áreyrar og rýrt mólendi.
Uppruna alaskalúpínunnar má rekja til N-Ameríku þar sem hún vex villt.
Alaskalúpínan var upprunalega flutt til landsins í lok nítjándu aldar sem garðplanta í kringum 1895. Um 1950, var alaskalúpínan flutt inn til landgræðslu. Eftir 1990 tók útbreiðslan mikinn kipp og er hún nú útbreidd um land.
Lúpína er á lista um ágengar tegundir hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
Umhverfisstofnun hefur meðal annarra staðið að upprætingu alaskalúpínunnar á friðuðum svæðum til að vernda íslenska flóru og líffræðilega fjölbreytileika í íslenskum vistkerfum.
Að útrýma alaskalúpínu getur verið mjög krefjandi verkefni þar sem nýjar plöntur spretta frá gífurlegum fræbanka sem liggur í jarðvegi eftir margra ára ræktun tegundarinnar á sama svæði. Uppræting tegundarinnar krefst mikillar þrautseigju og getur tekið mörg ár.
Í görðum ætti að skera blómklasa af plöntunni til að koma í veg fyrir fræmyndun. Þetta kemur í veg fyrir að alaskalúpínan dreifist út fyrir garðinn.
Ef einungis er um að ræða smáplöntur, ætti að grafa þær upp með rótum.
Hægt er að grafa upp stórar plöntur, slá þær með orfi eða klippa blómklasa áður en plantan myndar fræ.
Ef um stór svæði er að ræða er hægt á slá þau nokkrum sinnum á blómgunartíma, en gæta þess að slá ekki ef plantan er farinn að mynda fræ.
Plöntuúrgangi er hægt að safna saman og nota sem áburð í garðinn en verið þó alveg viss um að engin fræ séu til staðar.
Uppræting alaskalúpínunnar getur tekið langan tíma þar sem fræforði í jörðu heldur áfram að spíra í mörg ár.
Þegar plantan hefur verið grafin upp er gott að láta hana þorna. Mikilvægt er að eyða öllum fræjum af plöntunni. Það er hægt að nota þurrkaða plöntu án fræja í jarðgerð. Verið varkár þegar plöntuúrgangur og jarðvegur er meðhöndlaður þar sem hann getur innihaldið fræ.
Setjið allar plöntuleifarnar í vel lokaða poka og komið þeim á sorpmóttökustöð til eyðingar. Athugið hvort að viðkomandi móttökustöð taki við alaskalúpínu. Komið plöntuleifunum fyrir á stað sem er ætlaður fyrir framandi ágengar plöntur. Að öðrum kosti skal koma plöntuleifum fyrir á stöðum sem eru ætlaðir til eyðingar.
Athugið að það á ekki að meðhöndla plöntuleifar af alaskalúpínu sem hefðbundinn plönguúrgang. Fræjum af alaskalúpínu þarf að eyða.
Lupinus ættkvíslin er allstór með um 300 tegundir. Alaskalúpínu er aðallega ruglað saman við skrautlúpínu Lupinus x regalis og úlfabaunir Lupinus polyphyllus