Skógarkerfill

Efnisyfirlit

Skógarkerfill

Anthriscus sylvestris

Skógarkerfill er af ætt sveipjurta og er því skyldur hvönnum. 

Hann er stórvaxin og getur orðið allt að 150 cm hár við bestu aðstæður 

Plantan fjölgar sér bæði með rótarskotum og fræi en fræframleiðsla plöntunnar er mjög mikil.

Fræ skógarkerfilsins dreifast smeð vindi, vatni, fuglum, umferð og aðgerðum manna, til dæmis slætti.

Svona þekkir þú skógarkerfil

Skógarkerfill er stórvaxin tegund af ætt sveipjurta og getur orðið allt að 150 cm hár við góðar aðstæður. 

Hann er jurtkenndur með 8-16 lítil, hvít blóm í sveip. 

Aldinið er brúnt og gljáandi um 5-8 mm á lengd. 

Blöðin eru tví- til þríhálffjöðruð nær hárlaus nema á jöðrum og neðra borði og langstilkuð. 

Stilkar eru yfirleitt óloðnir en gáraðir. 

Af hverju er skógarkerfill óæskilegur? 

Skógarkerfill er mjög lífsseigur og þegar hann hefur myndað samfellda og þykka breiðu er nánast ógerningur að uppræta hann. 

Hann myndar smáplöntur út frá rótarhálsi og kastar frá sér gífurlegu fræmagni sem þýðir að ítrekað þarf að fara yfir sömu svæðin þegar verið er  að uppræta hann. 

Hann er skuggþolinn og getur þakið skógarbotna og þegar hann fer af stað á annað borð er ekki margt sem stoppar hann. 

Lágvaxnari tegundir eiga mjög erfitt uppdráttar þar sem skógarkerfillinn hefur náð að dreifa úr sér.

Áhrif á vistkerfið 

Útbreiðsla skógarkerfilsins um víðáttumilkil gróin svæði geta leitt til fábreyttari gróðurs og verulegra breytinga á dýralífi, bæði smádýra og fugla. 

Útivistargildi svæðis getur einnig rýrnað þar sem kerfillinn breiðist út, sérstaklega í blómlendi og með ám og lækjum. 

Einnig getur rofhætta aukist í landi þar sem kerfill er ríkjandi vegna rýrs undirgróðurs og yfirborð jarðvegs sem er illa hulinn yfir vetur. 

Áhrif á samfélagið

Gömul tún spillast sem ræktarlönd nái skógarkerfill yfirhöndinni og verður þörf á að endurrækta tún ef nýta á landið aftur. 

Skógarkerfill getur hamlað útivist þar sem hann vex yfir stíga og felur landslag.   

Áhrif á garðinn

Skógarkerfill myndar fljótt stórar breiður af plöntum sem skyggja á lágvaxnari gróður og tekur yfir á endanum. 

Hann er skuggþolinn þannig að hann getur vaxið upp af fræi inn á milli annarra plantna eða í lúpínubreiðum. 

Því lengur sem útbreiðsla skógarkerfilsins er óhindruð, því erfiðari er uppræting hans.

Áhrif á heilsuna

Ekki eru þekkt áhrif á heilsu við neyslu eða umgengni við plöntuna. 

Varast skal að rugla henni saman við bjarnarkló eða aðrar risahvannir sem innihalda hættuleg efni sem geta valdið bruna sárum.

Hvar finnst plantan?

Skógarkerfill er útbreiddur og finnst í öllum landshlutum. Útbreiðslu hans má að hluta til rekja til minni sauðfjárbeitar og hlýnandi veðurfars. 

Hann getur vaxið í röskuðu landi og er hraðvaxta og dugleg í samkeppni við annan gróður. Hann leggur undir sig frjósöm svæði eins og gömul tún eða lúpínubreiður. 

Kjörlendi tegundarinnar er rakur og frjósamur jarðvegur þar sem gott framboð er af köfnunarefni. 

Uppruni 

Uppruna skógarkerfilsins má rekja til Evrópu og Asíu þar sem hann vex villtur. 

Tegundin var upprunalega flutt til landsins sem garðplanta og eru fyrstu heimildir um skógarkerfilinn frá 1927.   

Stjórnvöld

Skógarkerfill er á lista um ágengar tegundir hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. 

Umhverfisstofnun hefur meðal annarra staðið að upprætingu skógarkerfils á friðuðum svæðum til að vernda íslenska flóru og líffræðilega fjölbreytileika í íslenskum vistkerfum.

Ráð til að útrýma skógarkerfli 

Að útrýma skógarkerfli getur verið mjög erfitt sé hann búinn að mynda þykkar breiður. Fræforðinn sem hann myndar er ekki langlífur en rætur hans eru mjög lífseigar. Uppræting tegundarinnar krefst mikillar þrautseigju og getur tekið mörg ár.

Í görðum ætti að skera blómklasa af plöntunni til að koma í veg fyrir frekari fræmyndun. Þetta kemur í veg fyrir að skógarkerfillinn dreifist út fyrir garðinn. Það getur verið erfitt að uppræta tegundina að fullu en þetta er gott fyrsta skref til að koma í veg fyrir dreifingu. 

Svona losar þú þig við smáplöntur

Ef einungis er um að ræða smáplöntur, ætti að grafa þær upp með rótum.

Svona losar þú þig við stórar plöntur

Hægt er að grafa upp stórar plöntur, slá þær niður t.d. með orfi eða klippa blómklasa áður en plantan myndar fræ. Helstu ráð til að eyða honum þar sem hann hefur komið sér fyrir er að slá hann a.m.k. tvisvar á ári áður en hann nær að mynda fræ. 

Hægt er að nýta sauðkindina og beita henni á ungar plöntur. 

Að stinga upp rætur skógarkerfils er mikil vinna og fyrirhöfn og er erfið nema þar sem um er að ræða stakar plöntur eða litlar breiður. 

Stórtæk uppræting

Hægt er að slá stór svæði en passa þarf vel að plantan sé ekki búin að mynda fræ. Sláið svæðið við eða eftir blómgun. Endurtakið að minnsta kosti einu sinni til viðbótar yfir vaxtarskeiðið. 

Meðhöndlun úrgangs

Þegar plantan hefur verið grafin upp er gott að láta hana þorna. Mikilvægt er að eyða öllum fræjum af plöntunni. Það er hægt að nota þurrkaða plöntu án fræja í jarðgerð. Verið varkár þegar plöntuúrgangur og jarðvegur er meðhöndlaður þar sem hann getur innihaldið fræ.

Setjið allar plöntuleifarnar í vel lokaða poka og komið þeim á sorpmóttökustöð til eyðingar. Athugið hvort að viðkomandi móttökustöð taki við skógarkerfli. Komið plöntuleifunum fyrir á stað sem er ætlaður fyrir framandi ágengar plöntur. Að öðrum kosti skal koma plöntuleifum fyrir á stöðum sem eru ætlaðir til eyðingar. 

Athugið að það á ekki að meðhöndla plöntuleifar af skógarkerfli sem hefðbundinn plönguúrgang. Fræjum af Skógarkerfli þarf að eyða. 

Tegundir sem líkjast skógarkerfli

Anthriscus ættkvíslin er lítil eða með um 15 tegundir. 

Skógarkerfli er aðallega ruglað saman við spánarkerfil Myrrhis odorata en eitt að helstu einkennum spánarkerfilsins er einkennandi og sterk aníslykt og anísbragði af blaðstilkum. Spánarkerfill fer sér þó mun hægar í útbreiðslu miðað við skógarkerfilinn.  

Skógarkerfill er innan sveipjurtaættarinnar eins og risahvannir en það ber að varast að líkja þeim saman. Risahvannir eru mjög hættulegar heilsu manna og ber að forðast að meðhöndla nema með ítrustu varúð. 

Heimildir

Skógarkerfill |Náttúrufræðistofnun Íslands

Floraislands.is

Umhverfisstofnun.is

For.se

arrow-up-circle