Fræðsluefni

Efnisyfirlit

Fræðsluefni

Hvernig er hægt að tengja umfjöllun um framandi ágengar plöntutegundir inn í skólastarfið? Leiðbeiningar fyrir kennara og tillögur að verkefnum. 

Af hverju að fjalla um ágengar framandi plöntutegundir í skólunum?

  • Auka þekkingu nemenda á áhrifum mannsins á líffræðilega fjölbreytni
  • Sýna fram á leiðir til þess að vinna gegn vandamálum sem tengjast ágengum tegundum
  • Auka vísindalega þekkingu og hæfni nemenda í gagnrýnni hugsun

Sérfræðingar byggja þekkingu á líffræðilegri fjölbreytni og ágengum framandi tegundum á rannsóknum og vísindalegum grunni. 

Tilgangur þessa námsefnis er að auðvelda öðrum að skilja hugtök á borð við ágengar framandi tegundir og líffræðilegan fjölbreytileika. Fræðsla í skólum getur brúað bilið milli sérfræðinga og almennings. 

Samvinna milli námsgreina 

Líffræðileg fjölbreytni og ágengar framandi tegundir hafa áhrif á samfélagið á fleiri en einn hátt. Málefnið snertir einnig margar námsgreinar. Það er því upplagt að vera í samstarfi við fleiri kennara um efnið. 

Mælt er með þematengdri nálgun í samfélagsfræði til að auka skilning á hlutverki yfirvalda og hvernig lög eru sett. 

Ágengar framandi tegundir og líffræðileg fjölbreytni eru umdeild viðfangsefni sem vekja upp margar spurningar. Rökræður geta einnig verið mikilvægar í þessari vinnu. 

Hér eru nokkrar tillögur að efni í mismunandi námsgreinum:

Líffræði:

  • Líffræðileg fjölbreytni
  • Vistkerfið
  • Loftslag
  • Þekking á plöntum og náttúru
  • Mótvægisaðgerðir

Myndmennt:

  • Myndgreining á kvikmyndum og myndum. Hvaða skilaboð vilja mismunandi hagsmunahópar senda með myndefni?
  • Að mála eða teikna plöntur

Enska:

  • Hægt er að nota texta og myndefni á ensku
  • Nemendur geta haldið kynningar eða rökræðuæfingar á ensku
  • Lesa og skilja fræðigreinar, ESB-reglugerðir og rannsóknarefni

Efnafræði:

  • Umhverfisþættir og greining

Saga:

  • Grasafræðileg þróun
  • Carl von Linné og aðrir fræðimenn sem komu með plöntur úr leiðöngrum sínum

Samfélagsfræði:

  • Hnattvæðing
  • Af hverju eru ágengar framandi plöntur vandamál?
  • Fjármál – mikill kostnaður fyrir samfélagið, hver á að borga?
  • Lög og reglur, ESB-reglugerðir, landslög og reglur 
  • Persónuleg ábyrgð

Íslenska:

  • Nemendur skrifa umfjallanir og greinar
  • Æfa sig í ræðumennsku 
  • Kynningartækni 
  • Lesskilningur og málvitund

Náttúruvísindi

Ágengar framandi plöntur eru víða að finna í okkar nánasta umhverfi, til dæmis í görðum, meðfram vegum, hjóla- og göngustígum, á skólalóðum og á opnum svæðum. 

Mikilvægt er að geta borið kennsl á ágengar framandi plöntur og í framhaldinu að öðlast skilning á neikvæðum áhrifum sem þær geta haft á samfélagið. 

  • Hvað er ágeng framandi planta? 
  • Hvers vegna er plantan óæskileg í umhverfinu? 
  • Hvaða áhrif getur hún haft á líffræðilega fjölbreytni? 
  • Hvaða áhrif getur ágeng framandi tegund haft á það sem fyrir er í náttúrunni og fólk, bæði til lengri og skemmri tíma? 

Umhverfi og loftslag eru víðtæk og mikilvæg viðfangsefni. 

Ágengar framandi tegundir eru efstar á lista yfir mestu ógnirnar við líffræðilega fjölbreytni ásamt loftslagsbreytingum, næringarefnaálagi, mengun, ofnýtingu og umhverfisbreytingum. 

Við mennirnir erum fyrst og fremst háðir líffræðilegri fjölbreytni til að geta framleitt mat. Atvinnugreinar eins og byggingariðnaður, læknis- og lyfjastarfsemi, tíska og ferðaþjónusta eru einnig háð líffræðilegri fjölbreytni.

  • Hvað get ég gert til að standa vörð um líffræðilega fjölbreytni? 
  • Hvað getur samfélagið gert? 

Tegundaþekking er mikilvæg  til að þekkja þær tegundir sem eru framandi ágengar tegundir 

  • Alaskalúpína (Lupinus nootkatensis)
  • Skógarkerfill (Anthriscu sylvestris)
  • Bjarnarkló (Heracleum mantegazzianum)

Gagnrýni á heimildir 

  • Niðurstöður vísindarannsókna þurfa að framfylgja ákveðnum gæðastöðlum til þess að fá viðurkenningu. Mikilvægt er að nýta slíkar heimildir í umfjöllun um líffræðilegan fjölbreytileika, loftslags- og umhverfismál. 
  • Hæfileikinn til að gagnrýna heimildir er mikilvægur til að draga fram eftirfarandi atriði: Hver segir hvað og hvers vegna? 
  • Er það vísindaþekkingin sem er mikilvægust til þess að geta tekið afstöðu eða lagt mat á umhverfisleg og/eða efnahagsleg rök? 
  • Eru vísindaleg rök sem liggja að baka heimildunum eða ekki?

Samfélagsfræði

Lýðræðisleg kerfi byggja á ferlum þar sem borgarar verða að geta látið rödd sína heyrast um ýmis málefni. 

  • Hvernig lítur það ferli út þegar kemur að ágengum framandi tegundum og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni? 
  • Á hvaða hagsmunahópa getur líffræðileg fjölbreytni haft áhrif ?
  • Hvaða ágengu framandi plöntur  skapa vandamál bæði í samfélaginu í heild og fyrir einstaklinga. 
  • Hver ber ábyrgð á dreifingu tegundarinnar? 
  • Hvernig getur plöntustofn haft áhrif á samheldnina í samfélaginu? 
  • Hvert er hlutverk og ábyrgð ESB, ríkisins, sveitarfélaga og einstakra landeigenda?  

Rökstuðningur

Siðferðileg afstaða, viðmið og viðhorf hafa ekki aðeins áhrif á skoðanir heldur einnig hvernig upplýsingar eru túlkaðar. Í þjóðfélagsumræðunni má sjá rök sem hafa mismunandi áherslur. Áhætta og ávinningur snúast um heilsuþætti, vistfræðilegar og efnahagslegar afleiðingar.

Haltu til haga bæði tilfinningalegum og röklegum þáttum í umræðunum með það að markmiði að auka skilning á umdeildum málum. Dragðu fram sambandið á milli viðmiða og gilda og þess sem er notað sem rök með eða á móti. Auktu meðvitund um að viðmið eru samfélagslegt samkomulag sem getur verið erfitt að skilja ef sanna á að það sé „rétt“ með hjálp vísindalegra röksemda.

Hafðu í huga að æfingar þar sem nemendur vinna að því að draga ályktanir aðeins út frá einu sjónarhorni geta leitt til þess að nemendur missi af mikilvægu samhengi í flóknu máli.

Með því að koma því skýrt til skila að viðmið og hefðir eigi einnig við sem rök þegar tekin er afstaða má auðvelda óöruggum nemendum að einbeita sér að og nýta sér vísindaleg rök og skýringar.

Gefðu gaum að því hvort í hópumræðu sé verið að ræða mismunandi hluti samtímis (t.d. ef sumir ræða réttlætissjónarmið á meðan aðrir tala um heilsufarsáhættu á sama tíma)

  • Hvers konar rök nota nemendur og samfélagið þegar þau taka afstöðu til málefna sem varða ágengar framandi tegundir? Hættulegt eða skaðlaust – er ógnin í raun eins alvarleg og hún er sögð vera? 
  • Lýðræði – hér er rætt um ýmsar hliðar réttlætis og valdatengsla. Höfum við  ekki rétt á að ákveða sjálf hvaða plöntur við höfum í okkar eigin garði?

Málvitund 

Náttúruvísindagreinar innihalda oft hugtök sem eru samsett úr mörgum nafnorðum/sagnorðum/atviksorðum. Þessi orð getur þurft að „aðskilja“ og útskýra til að skýra merkingu þeirra. Nokkur dæmi um slíkt hvað varðar ágengar framandi plöntur:

  • Plöntukynbætur: planta (nafnorð) og kynbæta (sögn) er orðið að nýju nafnorði. „Aðskilnaður“: plöntur sem eru kynbættar (og fá sérstaka eiginleika).
  • Varnaraðgerðir: verjast (sagnir) og aðgerðir (nafnorð) eru orðin að nýju nafnorði. „Aðskilnaður“: aðgerðir sem notaðar eru til að halda aftur af einhverju t.d. ágengum framandi tegundum.
  • Þurrkþolinn; þurrkur (nafnorð) og þola (sagnorð) er hér orðið að nýju lýsingarorði. „Aðskilnaður“: þolir að þurrk.

Það eru ekki alltaf nýju sértæku fagorðin sem eru erfiðust. Stundum eru það frekar efnishlutlaus óhlutbundin orð sem flækja: ágegnar, virkni, uppbygging, dreifing, auðlindir, mynda, skipta út, ákvarða, framandi, samsvara, minnka, sláandi, takmarkandi, áberandi. Hvað merkja þessi orð?

Útgangspunktar

Að byrja á stuttu myndbandi, útvarpsþáttum eða blaðagrein getur kveikt áhuga nemenda þegar í stað. Hvaða hugsanir kvikna þegar þið horfið á þáttinn eða lesið greinina? 

Hér eru nokkur dæmi um efni sem hægt er að nota. Til að fá ný dæmi er gott að fylgjast með fjölmiðlum.

Vefsíður með opinbera aðila með samningum, lögum og reglugerðum

Ágengar plöntur | Náttúrufræðistofnun Íslands 

Framandi lífverur á Íslandi | Umhverfisstofnun

Ágengar framandi lífverur | Umhverfisstofnun

European Network on Invasive Alien Species

Convention on Biological Diversity: Alien species that threaten ecosystems, habitats or species

Stefnumörkun Íslands um framkvæmd samningsins um líffræðilega fjölbreytni

Reglugerð um innflutning, ræktun og dreifingu útlendra plöntutegunda á Íslandi

Mál 15 í Heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna

Hlaðvörp

Framandi lífverum fjölgar | Kveikur á RÚV

Landnám tegunda verður ekki aftur tekið | Kveikur á RÚV

Grjótkrabbi | Samfélagið á Rás 1       

Áhrif loftslagsbreytinga á náttúru Íslands: Framandi ágengar tegundir | Náttúrufræðistofnun Íslands

Íslenska flóran í einna mestri hættu | Fréttir á RÚV

Fræði-, tímaritsgreinar og önnur umfjöllun

Það berast oft nýjar fréttir um ágengar framandi plöntur. Leitaðu að greinum um ágengar framandi plöntur eða einhverja af ágengum framandi tegundum.  Notaðu mismunandi fyrirsagnir og greinar sem inngang að efninu.

Hvað eru ágengar framandi dýrategundir? | Vísindavefurinn

Alien vascular plants in Iceland: Diversity, spatial patterns, temporal trends, and the impact of climate change

Ágengar plöntur í Stykkishólmi

Ágengar plöntur í Stykkishólmi – veggspjald

Áhrif framandi plöntutegunda

Ágengar tegundir við Hólmavík

Framandi tegundir á Norðurlöndunum

Vágestir í vistkerfum – fyrri hluti

Vágestir í vistkerfum – seinni hluti

Framandi sjávarlífverur við Ísland

Aðlaðandi ágengar tegundir eiga auðveldara líf

Rétt tré á réttum stað

Bogkrabbar taka yfir (bls. 44)

Myndbönd

Áhrif loftslagsbreytinga á náttúru Íslands: Framandi ágengar tegundir | Náttúrufræðistofnun Íslands

Invasive Species 101 | National Geographic (á ensku)

Hvernig dreifa ágengar framandi tegundir sér í Svíþjóð? (á sænsku) 

Tillögur að verkefnum

Hvað veit ég um ágengar framandi plöntur?

Aðferð: Hópvinna

Markmið: Að útskýra og flokka fyrri þekkingu á ágengum framandi plöntum. Að finna út hvað nemendur vita nú þegar um ágengar tegundir. 

Líklega ferðist þið reglulega um vegi, stíga, almenningsgarða eða úti í náttúrunni – og gætuð rekist á ágengar plöntur.

  1. Gerið hugarkort yfir ágengar tegundir. 
  2. Kynnið fyrir hinum í bekknum hversu mikið þið vitið nú þegar um ágengar tegundir – og hvaða tegundir og hugtök þið hafið talað um.

Sælureitur í náttúrunni

Öll eigum við okkur mismunandi sælureit. Sælureitur er orð sem lýsir stað þar sem við finnum hamingju, gleði og okkur líður vel. Oft tengist hann sérstökum stað í náttúrunni, þaðan er orðið komið. Hvar er þinn sælureitur? 

Ræðið í hópnum hvaða staðir í náttúrunni ykkur finnast aðlaðandi – og hvaða stað þið mynduð lýsa sem dásamlegum sælureit. Er það staður sem ykkur finnst fallegur eða er það staður sem þið eigið góðar minningar frá, til dæmis úr æsku? 

Teiknið eða lýsið staðnum sem þið hafið valið og sem ykkur finnst nú þegar vera sælureitur eða sem þið teljið að gæti orðið sælureiturinn. 

Kynnið sælureitinn ykkar fyrir hinum í hópnum.

Bætið einni eða fleiri ágengum framandi plöntum í sælureitinn. Hvaða afleiðingar getur það haft? Lýsið því hvernig þessar tvær tegundir af ágengum framandi plöntum geta breytt þessum sérstaka stað ef þið megið ekki hemja útbreiðslu þeirra. 

Dreifileiðir

Aðferð: Hóp- eða einstaklingsverkefni

Markmið: Að undirbúa og meta vísindalegt líkan.

Ágengar framandi plöntur dreifast um Ísland. Hver er ástæðan fyrir útbreiðslu ákveðinna tegunda og hvernig getum við tekið virkan þátt í að koma í veg fyrir og minnka útbreiðslu?

Hér eru nokkur ráð til varna:

  • Ekki henda garðúrgangi eða mold úr garðinum úti í náttúrunni eða utan lóðar.
    • Setjið ekki ágengar framandi plöntur í safnhauginn. 
    • Ekki taka plöntur eða fræ frá öðrum löndum með heim.
    • Ekki flytja garðaúrgang í opnum kerrum.
    • Lesiðykkur alltaf til um hvernig rétt er að meðhöndla tiltekna ágenga framandi plöntu.
  1. Ræðið hvað þið haldið að einstök atriði snúist um.
  2. Nú er komið að ykkur að gefa hinum í bekknum hagnýtar ráðleggingar út frá leiðbeiningunum um hvernig er hægt að takmarka útbreiðslu ágengra framandi plantna.
  3. Búið til veggspjald með myndskreytingum og texta með ráðleggingum um hvernig þið getið tekið virkan þátt í að minnka útbreiðslu ágengra tegunda.

Hvað er verið að gera í ykkar heimabyggð í baráttunni gegn ágengum framandi plöntum?

Mörg sveitarfélög reyna að berjast gegn ágengum framandi plöntum. Það er mismunandi milli sveitarfélaga hvaða ágengu framandi plöntum er reynt að halda í skefjum. 

Á vefsíðum sumra sveitarfélaga er hægt að nota leitarorðið „ágeng“, í öðrum sveitarfélögum þarf að leita að einstökum plöntum. Finnið ágengar framandi plöntur sem getið er um á heimasíðu sveitarfélagsins þar sem þið búið.

  1. Rannsakið hvað sveitarfélagið ykkur er að gera þegar kemur að því að fylgjast með og hemja ágengar framandi plöntur.
  2. Hvaða aðferðir notar sveitarfélagið til að berjast gegn ágengum framandi plöntum?
  3. Ef nauðsyn krefur, hafið samband við stjórnendur í ykkar sveitarfélagi til að fá frekari upplýsingar.

Mynda-safarí

Ef þið farið í rannsóknarleiðangur getið þið fundið ágengar framandi plöntur í ykkar nágrenni. Á vefnum má finna margar myndir af ágengum framandi plöntum en einnig er hægt að fara í rannsóknarleiðangur með myndavél til að finna og mynda ágengar framandi plöntur.

  1. Farið út í hópum og takið myndir af nokkrum ágengum framandi plöntum í nærumhverfinu.
  2. Skráið plönturnar sem þið finnið  og setjið í hópaverkefnið ásamt myndum.

Upplýsingaátak um ágengar framandi plöntur

Aðferð: Para- eða hópverkefni 

Markmið: Að geta tjáð sig af nákvæmni og með blæbrigðaríku máli með því að nota fagorð og hugtök.

Þekking er mikilvæg til að geta fylgst með og heft útbreiðslu ágengra framandi plantna. Þekkingu er hægt að koma á framfæri á margan hátt og átak getur skilað árangri til að fá sem flesta til að skilja skilaboðin.

Notið þekkingu ykkar og reynslu af ágengum framandi plöntum til að skipuleggja átak fyrir svæðið þar sem þið búið.

Átakið getur til dæmis falist í að útbúa póstkort sem er afhent eða sent til vina og vandamanna. Einnig hægt að gera veggspjöld og hengja upp í skólanum og á opinberum stöðum. Kannski getur átakinu fylgt teiknimynd eða jafnvel hreyfimynd t.d. fyrir samfélagsmiðla.

Átak ykkar ætti að veita upplýsingar sem hjálpar ykkur að svara eftirfarandi spurningum:

  • Hvað eru ágengar framandi plöntur?
  • Hvers vegna þarf að hefta útbreiðslu ágengra framandi plantna?
  • Hvaða ágengu framandi plöntur eru í okkar nærumhverfi?
  • Veljið ágenga framandi plöntu úr nærumhverfi ykkar og tilgreinið hvernig er hægt að hefta útbreiðslu hennar.

Loftslagssvæði

Lífið á jörðinni hefur alltaf breyst í tengslum við þróun loftslags. Þær loftslagsbreytingar sem við búum við í dag vegna hlýnunar jarðar stuðla að breytingum á líffræðilegri fjölbreytni og auka hættu á að fleiri tegundir geti haslað sér völl á nýjum svæðum og orðið ágengar framandi tegundir vegna breyttra lífsskilyrða. 

Aðferð: Hópvinna

Markmið: Að afla þekkingar um loftslagssvæðin, ræða stöðu loftslagsmála í dag og afleiðingar loftslagsbreytinga í tengslum við tegundir lífvera í framtíðinni.

  1. Ræðið um hvernig fyrri loftslagsbreytingar hafa stuðlað að útbreiðslu tegunda. 
  2. Rannsakið og lýsið mikilvægi hlýnunar jarðar fyrir líffræðilegan fjölbreytileika .
  3. Skrifaðu heiti 7 loftslagsbelta á spjald.

Veljið úr þessum nöfnum: nyrðra kuldabeltið, hitabeltið, nyrðra heittempraða beltið, syðra heittempraða beltið, syðra kuldabeltið, nyrðra tempraða beltið, syðra tempraða beltið.

  • Í hvaða loftslagsbelti er í Ísland?
  • Ræðið og metið hvers vegna og hvernig hlýnun jarðar getur haft áhrif á fótfestu ágengra framandi plöntutegunda um allan heim.

Lúpína og fjölmiðlar

Oft er talað um lúpínu í fréttum og á samfélagsmiðlum. 

Ræðið og finnið út hver forsaga umfjöllunarinnar um lúpinu er.

  1. Finnið ykkar eigin fréttagreinar umlúpínu. 
  2. Þið gætuð líka fundið aðrar fyrirsagnir um ágengar framandi tegundir á netinu.
  3. Búið til veggspjald eða kynningu á einni eða fleiri fyrirsögnum og kynnið fyrir hinum í bekknum.
  4. Setjið saman spurningakeppni þar sem bekkjarfélagarnir giska á um hvað greinarnar fjalla.

Hraðstefnumót – hlustið, lærið og reynið röksemdafærslur hvors annars.

  1. Sitjið saman tvö og tvö. Dragið um hver á að vera með og hver á að vera á móti í málefni sem tengist ágengum framandi plöntum. Takið sem dæmi lúpínuna sem vekur miklar tilfinningar. Margir elska lúpínuna og tengja hana við sumrin og vilja að hún fái að vera í friði. Á sama tíma ógnar hún líffræðilegri fjölbreytni með því til dæmis að vaxa yfir og kæfa  innlendar plöntur.  Ræðið í 1 mínútu.
  2. Skrifið niður bæði rök ykkar og andstæðingsins. Ræðið hvaða rök vega þyngst og hvers vegna.
  3. Skiptið um félaga. Á næsta „stefnumóti“ eigið þið að vera á gagnstæðri skoðun. (Þ.e. ef þið voruð með í fyrsta skiptið eigið þið næst að vera á móti). Reynið að nýta rökin sem þið skrifuðuð niður og koma með ný.
  4. Skrifið líka niður rök í þetta skipti.
  5. Skiptið um skoðun í hvert sinn sem þið skiptið um félaga.

Ábendingar til kennarans: Stoppaðu æfinguna eftir nokkrar umferðir. Nemendur skrifa stuttar hugleiðingar út frá spurningunum: 

  • Hvernig var að vera með? 
  • Hvernig var að vera á móti? 
  • Hvernig leið ykkur með að skipta um skoðun?

Æfingunni lýkur með því að allur bekkurinn fer í gegnum rökin sem komu fram.

Fjögurra horna æfing

Hvert horn í kennslustofunni tilheyrir einum af valmöguleikunum. Nemendur fara í það horn sem þeim finnst passa við þeirra skoðun

1. Hver ber ábyrgð ef ágeng framandi planta dreifir sér af almenningssvæði inn í einkagarð? Til dæmis tröllahvönn. 

  • Sveitarfélagið sem ber ábyrgð á almenningssvæðinu
  • Garðeigandinn
  • Fyrirtækið sem líklega flutti rótarhluta þegar það keyrði um svæðið
  • Annað

2. Hver/hverjir eiga að ákveða hvaða plöntur og fræ megi flytja inn?

  • Ríkisstjórnir landa
  • Vísindafólk
  • Markaðurinn
  • Annað

3. Hver ber ábyrgð á að tegundum fer fækkandi í náttúrunni? 

  • Það er ríku löndunum að kenna
  • Það er fátæku löndunum að kenna
  • Það er öllum að kenna
  • Annað

Línuæfingin

Útskýrðu að stofunni sé skipt í tvennt með ímyndaðri línu frá einum vegg að veggnum á móti. Annað hornið táknar öfgaskoðanir í aðra áttina, hitt hornið hina. Nemendur stilla sér upp á línunni þar sem þeir telja að þeirra skoðun á málinu liggi.

Átt þú ekki að fá að ákveða sjálfur hvaða plöntur þú hefur í þínum garði?

  • Nei, það verða að vera reglur
  • Það þarf ekki neinar reglur, allar plöntur eiga alltaf að vera leyfilegar

Gætir þú hugsað þér að hjálpa til við að berjast gegn ágengum framandi plöntum í frítíma þínum með því til dæmis að fara út og eyða lúpínu?

  • Aldrei í lífinu!
  • Algjörlega, ég er til í það!

Orðatennis – byrjum að hugsa

Láttu nemendur hafa efni, fullyrðingu eða mynd til að tengja við. Tillaga um hvernig æfingin er kynnt: „Nú ætlum við að vinna með líffræðilega fjölbreytni. Hvaða orð dettur þér í hug þegar þú sérð þessa mynd?“ Notaðu t.d. myndina af lúpínu. 

Nemendur vinna í pörum og nefna til skiptis orð sem þeim dettur í hug.

Eftir nokkra stund er hægt að velja úr nokkur af orðunum og ræða út frá þeim:

  • Hvað var það sem varð til þess að þessi orð komu upp? 
  • Hvaða samband liggur að baki? 
  • Hvernig tengjast þau viðfangsefninu?
arrow-up-circle